*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 11. mars 2015 08:20

Ríkið grípi inn í takist ekki að lægja öldur

Hagfræðiprófessor segir að verði ekki slegið á ólgu í kjaradeilum sé mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist við.

Ritstjórn
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
vb.is

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að í þeim skýrslum og greiningum sem birst hafi síðustu mánuði sé eki að finna augljósa ástæðu fyrir því að úti sé um frið á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í grein eftir hann sem birtist í Vísbendingu í gær, en Fréttablaðið greinir frá málinu.

„Ef ekki tekst að lægja öldurnar á vinnumarkaði á næstu vikum með bættri upplýsingagjöf er mikilvægt að ríkisstjórn stígi fram og móti tillögur í samvinnu við aðila vinnumarkaðar, bæði stéttarfélög launafólks og atvinnurekendur, tillögur sem miða að því að þorra launafólks finnist ekki á sig hallað,“ segir Gylfi.

Hann segir að Seðlabankanum beri lögum samkvæmt að bregðast við verðbólguþrýstingi með vaxtahækkunum. Aukist verðbólga til dæmis úr tveimur prósentum í sex þyrftu vextir að hækka um meira en fjórar prósentur svo raunvextir nái að hækka til þess að slá á eftirspurn, framleiðslu og atvinnu í því skyni að minnka verðbólguþrýstinginn.

Segir Gylfi að kjarasamningar sem ýttu undir verðbólgu hefðu því einnig mikil áhrif á vaxtakostnað ríkisins, fyrirtækja og einstaklinga til viðbótar því að eftirspurn, atvinna og lífskjör yrðu verri en ella.