*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 21. júní 2021 17:10

Ríkið hafði betur gegn Sjólaskipum

Átta milljarða söluhagnaður af Afríku útgerð Sjólaskipa til Samherja skattleggst sem sala á atvinnurekstrareign hjá félaginu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í liðinni viku kröfu Hafnarfells hf., sem áður hét Sjólaskip hf., um að felldur yrði úr gildi úrskurðir Ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í málefnum félagsins. Niðurstaðan þýðir að söluhagnaður félagsins af Máritaníu útgerð sinni, til Samherja hf., alls tæplega átta milljarðar króna, skuli skattleggjast hjá félaginu sem sala atvinnurekstrareigna.

Aðdragandi málsins er sá á að árinu 2007 var Sjólaskipum skipt upp í tvö félög og tilteknar eignir þess færðar yfir í Kötlu Seafood ehf. Sú skipting var tilkynnt í júní það ár en mánuði fyrr hafði verið skrifað undir kaupsamning á öllum hlutabréfum hins óstofnaða félags til Samherja. Inn í hið nýja félag áttu að renna þrjú skip, birgðir, varahlutir, aflaheimildir, veiðileyfi og sóknardagar í Máritaníu og Marokkó. Endanleg skipting átti sér stað í október.

Samkvæmt lögum um tekjuskatt er heimilt að skipta félagi upp án þess að til skattskyldu stofnist hjá hluthöfum að því gefnu að þeir fái aðeins bréf í hinu nýja félagi, í sömu hlutföllum og áður, í staðinn. Í málinu töldu bæði RSK og yfirskattanefnd að þetta skilyrði væri ekki uppfyllt enda hefði þegar verið ákveðið að selja hið skipta félag.

Af þeim sökum hefðu þeir ekki getað fengið aðeins bréf í hinu nýja félagi enda höfðu þeir afsalað sér rétti sínum til hlutsins í Kötlu Seafood. Markmiðið með gjörningnum hefði verið að hluthafar hins nýja félags greiddu aðeins skatt af sölu bréfanna í stað þess að Sjólaskip hefði þurft að greiða skatt vegna sölu atvinnurekstrareignar.

Krafa um ógildingu úrskurðarins var studd ýmsum rökum. Fyrir hið fyrsta hefði frestur til endurákvörðunar opinberra gjalda tekjuársins 2007 runnið sitt skeið árið 2013 og RSK því ekki haft heimild til töku ákvörðunar árið 2013. Þá hafi könnun málsins átt undir Ríkisskattstjóra en ekki skattrannsóknarstjóra en RSK hafði áframsent málið til síðarnefnda embættisins.

Hvað efnisþátt málsins varðaði þá var byggt á því að ekki hefði verið um sölu tiltekinna rekstrareigna að ræða heldur sölu starfandi félags. Tilgangur Sjólaskipa hefði verið annar eftir þetta, það er rekstur fasteigna á meðan útgerðarhlutinn þar syðra var seldur.

Í niðurstöðu dómsins segir um fyrrnefnda rannsókn að þegar ákvörðun var tekin um að senda könnun á skiptingu félagsins frá RSK til skattrannsóknarstjóra hafi þegar staðið yfir rannsókn hjá síðarnefnda embættinu á skattskilum útgerðarinnar vegna veiðanna. Sú rannsókn hófst árið 2011. Að mati dómsins var heimilt að vísa þessum þætti málsins, sem almennt fellur undir skatteftirlit, til skattrannsóknarstjóra. Því hefði fyrning til endurákvörðunar verið rofin í tæka til að endurákvörðun kæmist að í málinu.

Hvað efnisþátt málsins varðaði var það niðurstaða dómsins að gagngjaldsskilyrði tekjuskattslaganna, í tengslum við skiptinguna, hefði bersýnilega ekki verið uppfyllt enda hefðu hluthafar þegar ráðstafað bréfum hins skipta félags annað. Kröfu um ógildingu var því hafnað.