Hótel og gistiheimili hafa samtals fengið ríflega 3,1 milljarð króna í end­urgreiðslu frá ríkissjóði á síðustu sjö árum, eða síðan árið 2007. Þetta þýðir að á þessu tímabili hefur ríkið endurgreitt hótelum og gistiheimilum að meðaltali um 450 milljónir króna ári. Í fyrra var þessi upphæð 463 milljónir. Greiðslan er tilkomin vegna mis­munar á innskatti og útskatti hótela og gistiheimila. Greiddur er 7% virð­isaukaskattur af gistingu en 25,5% virðisaukaskattur er á stórum hluta af aðföngum hótela og gistiheimila. Þau fá því mismuninn endurgreidd­an frá ríkinu.

Þessar upplýsingar koma fram í svari Bjarna Benediktssonar fjár­ málaráðherra við fyrirspurn Odd­nýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Oddný gegndi embætti fjármálaráðherra á ár­unum 2011 og 2012.

Oddný segir að sér finnist þetta ekki ganga. „Mér finnst að þegar ferðaþjónustan er komin á þennan stað sem hún er í dag eigi hótel og gistiheimili að vera í almennu þrepi – borga 25,5% virðisaukaskatt,“ seg­ ir Oddný. „Ég get hins vegar vel skilið að að það þurfi að gera það í skrefum. Það er reyndar það sem við ætluðum að gera þegar við vor­um í ríkisstjórn. En síðan var eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að draga hækkun virðisaukaskatts á gistingu til baka. Þegar ferðamönnum fjölgar með svona byltingarkenndum hætti eins og undangengin ár þá eigum við ekki að vera með afslátt á þjónustu fyrir erlenda ferðamenn. Í þessu tilfelli erum við með neysluskatt á þjón­ustu sem erlendir ferðamenn nota að mestu sem er jafnhár og skattur á matvöru og nauðsynjavörur fyrir almenning.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .