Hætt er að við að Íbúðalánasjóður geti ekki greitt af 529 milljarða króna útgefnum íbúðabréfum bregðist yfirvöld ekki við í tæka tíð. Frá þessu greinir fréttaveitan Bloomberg. Haft er eftir Sigurði Erlingssyni, forstjóra sjóðsins, að komi tillögur um úrlausn á vanda Íbúðalánasjóðs ekki fyrir lok næstu viku geti Íbúðalánasjóður lent í vandræðum. Vinnuhópur fjármálaráðuneytisins átti að skila tillögum að úrslaun á vanda sjóðsins þann 1. október síðastliðinn.

Virði útgefinna skuldabréfa sjóðsins nemur 529 milljörðum króna. 62% bréfanna eru í eigu lífeyrissjóða en 6,3% í eigu erlendra fjárfesta.

Bloomberg hefur eftir sérfræðingi hjá Moody´s að ekki sé búist við öðru en að ríkið hlaupi undir bagga fari svo að sjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar. Lánsmatsfyrirtækið staðfesti lánshæfiseinkunnina Baa3 þann 5. október síðastliðinn en þó með neikvæðum horfum.