Eignahlutir í bönkum og fjármálastofnunum sem ríkið hefur þurft að taka yfir munu verða höndum fjármálaráðuneytis á meðan endurfjármögnun þeirra stendur yfir. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Þegar endurfjármögnun fyrirtækjanna lýkur eða nýr eigandi kominn að þeim sleppir ráðuneytið takinu. Þetta á bæði við um Byr og SpKef sem ríkið tók yfir í apríl í fyrra.

Guðlaugur Þ. Þór, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði fjármálaráðherra nokkrum sinnum um það í umræðum um fjáraukalög á Alþingi í dag hverju sæti að eignahlutir í illa stöddum sparisjóðum skuli hafa verið í höndum fjármálaráðuneytis en ekki Bankasýslu ríkisins.

Guðlaugur tók fram að hann ætti sérstaklega við SpKef og Byr sem hafi starfað í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki án fullnægjandi eiginfjárskilyrða en undir verndarvæng hins opinbera. Íslandsbanki hefur nú gert tilboð í endurreistan Byr en Landsbankinn keypt SpKef.

Steingrímur, sem svaraði Guðlaugi nokkrum sinnum, sagði það á hreinu að eignarhlutir í nýju fjármálafyrirtækjunum sem stofnaðir voru á grunni gömlu sparisjóðanna liggi hjá ráðuneytinu á meðan endurfjármögnun þeirra standi yfir. Þegar því ljúki færist eignarhaldið yfir til bankasýslunnar eða nýrra eigenda.