Ríkissjóður fær heimild til að kaupa af Reykjanesbæ spildur úr jörðunum Kalmanstjörn og Junkaragerði á Reykjanesi samkvæmt fjáraukalögum. Jörðunum fylgja orkuauðlindir sem sjá Reykjanesvirkjun fyrir um helmingi þeirrar orku sem hún nýtir nú og ætluð er í fyrirhugaða stækkun.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu (FBL) í dag en kaupin eru sögð liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að vinda ofan af eignarhaldi kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku.

„Með kaupunum eignast ríkið allar þær auðlindir sem HS Orka nýtir í Reykjanesvirkjun. Fyrirtækið átti þó ekki orkulindirnar heldur leigði þær af Reykjanesbæ,“ segir í frétt FBL.

„Kaupverðið er 1.230 milljarðar króna, en um 70 prósent þess, 900 milljónir króna, eru í formi niðurfellingar skuldar Reykjanesbæjar við ríkissjóð. Stærstur hluti kaupverðsins fer því í að borga upp skattaskuld bæjarfélagsins.“

Reykjanesvirkjun er nú 100 megavött og er áætlað að stækka hana um 40 til 50 megavött. Virkjunin hefur starfsleyfi fyrir allt að 180 MW. Skrifað verður undir kaupsamning í dag.