Íslenska ríkið átti í fyrra húsgögn sem metinu voru á 5,8 milljarða, lækningatæki upp á 4,9 milljarða, skip upp á 15,4 og flugvélar sem metnar voru á 13,9 milljarða. Þetta kemur fram í ríkisreikningi Fjársýslu ríkisins fyrir síðasta ár.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að undanfarin ár hafi verið unnið að því að setja upp og taka í notkun eignarskrárhluta Orra, fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins. Notkunin hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Þá hafi miklar breytingar á ráðuneytum og stofnunum á síðustu árum tafið verkið og gert það flóknara í framkvæmd. Við bætist að nokkrar ríkisstofnanir nýta ekki fjárhagskerfi Orra heldur önnur kerfi.

Í Morgunblaðinu segir að yfirlitið sýni stöðu eignaskrárinnar miðað við þá 127 ríkisaðila í A-hluta sem eru með fullnægjandi eignaskrá í Orra í árslok 2013. Eignaskráin er hins vegar ekki tæmandi þar sem upplýsingar vantar frá ákveðnum stofnunum sem eiga umtalsverðar eignir, svo sem Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun.