Á næstu dögum verður lagt fram frumvarp frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð sem víkka mun til muna þann ramma sem Landmælingum Íslands er markaður í lögunum.

Hingað til, eða frá árinu 2006, hefur eitt af verkefnum Landmælinga Íslands verið „[g]erð, viðhald og miðlun á eftirtöldum stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000 og miðlun þeirra í minni mælikvarða“ og á eftir fylgir listi yfir hluti sem eiga að vera á viðkomandi kortum. Með breytingunni nú eru orðin „í mælikvarðanum 1:50.000 og miðlun þeirra í minni mælikvarða“ tekin úr þessari lagagrein.

Í frumvarpsdrögum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir í athugasemdum að markmiðið með breytingunni sé að Landmælingar Íslands komi upp, viðhaldi og miðli landupplýsingagrunni í þeirri nákvæmni sem þörf sé á hverju sinni og tækni leyfi. Kort í mælikvarðanum 1:50.000 séu ekki nægilega nákvæm fyrir skipulagsvinnu svo dæmi sé tekið.

Mikill kostnaður

Fyrirtækið Loftmyndir ehf. hefur unnið kortagrunn af Íslandi í mælikvarðanum 1:2.000 til 1:5.000 og eru kort fyrirtækisins notuð mikið við skipulagsvinnu og framkvæmdir.

Karl Arnar Arnarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kostnaður við að koma upp slíkum grunni sé afar mikill.

„Okkar mat er að ef Landmælingar Íslands myndu fara í að byggja upp nýjan nákvæman gagnagrunn af Íslandi yrði kostnaðurinn við það varlega áætlaður á bilinu 2-2,5 milljarðar króna og svo þyrfti að viðhalda þessum grunni um ókomna framtíð. Þegar haft er í huga að þær upphæðir sem ríkisstofnanir eru að greiða fyrir kaup af kortagögnum af okkur eru um 50 milljónir króna á ári er erfitt að sjá að þarna sé verið að fara vel með almannafé.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .