*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. ágúst 2017 14:52

Ríkið kaupi upp ærgildi bænda

Ærgildi, sem veita sauðfjárbændum rétt á beinum greiðslum úr ríkissjóði, verða mögulega keypt upp til að draga úr framleiðslustyrkjum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Meðal tillagna Þorgerðar Katrínar Gunnarssdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá, er að ríkið kaupi upp ærgildi bænda. Ærgildi veita þeim lögbýlum sem þau hafa rétt til beinnra greiðslna úr ríkissjóði.

Þorgerður Katrín segir að þannig mætti fækka sauðfé og minnka framleiðni en tillögurnar voru kynntar á fundi atvinnuveganefndar í gær og eru nú í úrvinnslu að því er sagt er frá í Morgunblaðinu í dag.

Mikil framleiðni rót vandans

„Það liggur ljóst fyrir annars vegar að það þarf að taka á rótum vandans, sem er þessi mikla framleiðni,“ segir Þorgerður Katrín sem vonast til þess að endir verði kominn á málið í næstu viku. „Hins vegar þarf að gera það sem við getum gert til að hjálpa í þessum skammtímavanda, sem er fyrst og fremst kjaraskerðing til bænda og finna leiðir til þess að hjálpa þeim beint án milliliða.“

Ráðherrann segir mikilvægt að koma með tillögur sem geti byggt upp bæði sauðfjárbændur og landbúnað til lengri tíma, en enn sé komið sé unnið eftir gildandi búvörusamningi. Hann sé hins vegar framleiðsluhvetjandi og þörf sé á að endurskoða hann til stuðning þeirra tillagna sem unnið sé að.

Útflutninsskylda ekki í þágu neytenda né bænda

„Það er hægt að tala um aukna fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun sérstaklega. Það er mikið talað um það m.a. eftir að Costco kom á markaðinn hvernig við getum markaðssett lamakjötið betur. Þá má einnig nefna kolefnisjöfnun og aðra jarðræktarstyrki,“ segir Þorgerður Katrín.

„En ég hef sagt við bændur allt frá upphafi að ég mun ekki vinna að því að koma á útflutningsskyldu. Hún er ekki í þágu neytenda og til lengri tíma ekki í þágu bænda.“

Segist hún eðli málsins samkvæmt ýta á að endurskoðun búvörusamningsins eigi sér stað sem fyrst. „[O]g við getum fengið að sjá tillögur frá endurskoðunarnefnd, sem á að stuðla að langtímalausnum í stað skammtímalausna, sem við erum ávallt að upplifa sem endurtekið efni í sögu sauðfjárbænda síðustu ár og áratugi.“