Ríkissjóður hefur gert samkomulag við eigendur Auðkennis ehf., útgefanda rafrænna persónuskilríkja, um kaup ríkisins á öllu hlutafé Auðkennis fyrir um 948 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu .

Kaup­verðið nemur bók­færðu hluta­fé fé­lagsins sem er um 80% af því fjár­magni sem eig­endur fé­lagsins hafa lagt til fé­lagsins í formi hluta­fjár til þess að þróa lausnina. Lands­bankinn, Ís­lands­banki og Arion banki voru stærstu eig­endur fé­lagsins með um fjórðungs­hlut hver fyrir sig og Síminn átti 16%.

„Sam­hliða sam­komu­lagi um kaupin var undir­rituð yfir­lýsing um fyrir­komu­lag rekstrar og fram­þróunar lausnar fé­lagsins í sam­starfi við stærstu þjónustu­veit­endur, sem í dag eru auk ríkis og sveitar­fé­laga aðal­lega við­skipta­bankarnir þrír," segir í til­kynningunni.

„Aðilar sam­komu­lagsins eru sam­mála um að kaup ríkisins á Auð­kenni séu í sam­ræmi við þá miklu þróun raf­rænnar auð­kenningar sem orðið hefur í sam­fé­laginu og mun á­fram aukast, ekki síst sam­hliða aukinni, bættri og að­gengi­legri staf­rænni opin­berri þjónustu. Ríkið gefur út al­menn skil­ríki, s.s. öku­skír­teini og vega­bréf og nú einnig raf­ræn skil­ríki.

Megin­verk­efni Auð­kennis verður að tryggja á­fram­haldandi þróun og út­breiðslu raf­rænna skil­ríkja meðal al­mennings, sem einnig styður við þróun tengdrar staf­rænnar þjónustu innan hins opin­bera geira og einka­geirans og sjálf­bæra þróun fé­lagsins."

Auð­kenni er út­gefandi raf­rænna skil­ríkja sem jafn­gilda per­sónu­skil­ríkjum. Hægt er að nota þau til fullgildrar undir­ritunar sem jafn­gildir eigin undir­ritun. Velta fé­lagsins jókst um 35,2% í far­aldrinum á síðasta ári og var hagnaður þess um 88,8 milljónir króna.