Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að kaupa netbirtingaréttinn á þremur nýjum heildarútgáfum Íslendingasagna og þátta á á dönsku, norsku og sænsku. Kaupverðið nemur 75 milljónum króna eða sem nemur 25 milljónum króna á hvert tungumál. Tíu milljónum króna er varið til kaupanna á þessu ári og fellur það í hlut Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, að semja um greiðslu á því sem út af stendur á næstu sex til átta árum.

Það er Jóhann Sigurðsson og bókaútgáfa Saga forlag sem hefur haft veg og vanda að útgáfunni. Heildarþýðing Íslendingasagnanna og þátta á dönsku, norsku og sænsku hófst árið 2006 og hafa 60 fræðimenn og þýðendur komið að verkinu. Stefnt er á að heildarútgáfan komi út næsta vor í fimm bindum eða á samtals 8.400 blaðsíðum.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að upphaf átaksins má rekja til ársins 2005 þegar íslenska ríkið keypti netbirtingarréttinn á ensku útgáfunni, Complete Sagas of Icelanders. Í framhaldinu var ráðist í þýðingu á heildarverkinu undir ritstjórn Gísla Sigurðssonar rannsóknarprófessors við Árnastofnun. Alþingi hefur stutt útgáfuna og hún hefur einnig fengið mikilvæga norræna styrki.