Ríkiskaup hafa gert samning við íslenska pappírsframleiðandann Papco um kaup á plastpokum fyrir stofnanir og fjölmörg sveitarfélög. Verðmæti samningsins hleypur á milljónum króna en um er að ræða mörg tonn af plastpokum. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum.

Haft er eftir Þórði Kárasyni, framkvæmdastjóra Papco, að þetta sé mikilvægur samningur fyrir fyrirtækið, ekki síst þar sem það hafi nýverið bætt plasti við vöruúrvalið.

„Við höfum breikkað þjónustusviðið með stofnun fyrirtækjasviðs og aukið umsvif á stórnotendamarkaði sem undirstrikar vöxt fyrirtækisins. Það þjónustar fyrirtæki, stofnanir og sveitafélög ekki einungis með pappír heldur nú einnig með plasti og ýmsum hreinlætisvörum,“ segir hann og bætir við að ánægjulegt sé að íslenskt framleiðslufyrirtæki hafi verið valið í útboði, sem styrki íslenskan iðnað. „Innlend pappírs- og plastframleiðsla skapar fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur sem er auðvitað mjög jákvætt fyrir íslenska hagkerfið,“ segir hann.

Þetta er ekki fyrsti samningur Papco við Ríkiskaup en fyrirtækið hefur síðastliðin fjögur ár séð ríkisstofnunum og sveitarfélögum fyrir hreinlætispappír.

Papco er með höfuðstöðvar í Reykjavík en fyirtækið er einnig með verslun og söluskrifstofu á Akureyri.