„Þótt grunnhugsunin að baki álagningu vörugjaldsins sé að auka skattekjur ríkissjóðs og í sumum tilvikum að stýra neyslu almennings er það skoðun okkar að upphaglegur tilgangur vörugjaldsins eigi ekki við í dag.“

Þetta segir í grein Margrétar Kristmannsdóttur, formanns Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), og Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra samtakanna, í Fréttablaðinu í dag. Í greininni er fjallað um tilurð og þróun vörugjalda og benda þau Margrét og Andrés á að þess hafi ekki verið gætt að sams konar vörur fái sambærilega meðferð. Þannig sé 20% vörugjald lagt á samlokugrill, 25% á sjónvarpsskjá en ekkert gjald á brauðrist eða tölvuskjá.

Í greininni er farið yfir heildartekjur ríkissjóðs af vörugjöldum 2010 en samtals voru heildarvörugjaldstekjur 47 milljarðar. „Almennt vörugjald, sem er sá þáttur vörugjaldanna sem íslensk verslun lítur hvað mest hornauga, skilar nú u.þ.b. 4,9 milljörðum króna í tekjur fyrir ríkissjóð á ári sem er einungis rúmlega 10% af heildartekjum ríkissjóðs af vörugjöldum“, segir í greininni. Þar segir jafnframt að íslensk verslun hafi um langa hríð barist fyrir afnámi almenna vörugjaldsins. Það hafi öll einkenni ósanngjarnrar skattheimtu. „Það mismunar vöruflokkum og atvinnugreinum, það er ógagnsætt og dýrt í framkvæmd.“

Í greininni kemur fram að að tillögu SVÞ hafi fjármálaráðherra nú ákveðið að skipa starfshóp um heildarendurskoðun vörugjaldskerfisins. Það sé fagnaðarefni enda í fyrsta sinn í 25 ár sem farið sé heildstætt í saumana á kerfinu. Segja þau SVÞ þó áfram muna berjast fyrir afnámi vörugjaldsins.

Grein Margrétar og Andrésar í heild sinni má lesa hér .