Íslenska ríkið hefur lokið fimm málum hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) með sáttum nema samtals 60 þúsund evrur eða 9,2 milljónir króna. Um er að ræða þrjú mál tengd markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og tvö mál tengd Milestone.

Ríkið ábyrgist að greiða Sigurjóni Þ. Árnasyni, Ívari Guðjónssyni, Sigurþóri Charles Guðmundssyni, Margréti Guðjónsdóttur og Karli Emil Wernerssyni 12 þúsund evrur, eða um 1,8 milljón króna, í bætur hver um sig vegna brota á rétti kærenda á sanngjörnum réttarhöldum. Á móti verður fallið frá frekari kröfum gegn íslenska ríkinu. Hins vegar halda kærendurnir rétti til að óska eftir endurupptöku málana fyrir innlendum dómstólum.

Í Landsbankamálinu var það mat MDE að Sigurjón, Steinþór og Ívar hafi ekki hlotið sanngjarnra réttarhalda þar sem einn Hæstaréttardómari hafi ekki verið hlutlaus í málinu og var vísað í niðurstöðu dómstólsins í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, sem var ein af æðstu stjórnendum Landsbankans fyrir bankahrunið 2008. Hún hlaut 1,7 milljónir króna í bætur fyrir rúmu ári síðan þar sem hlutlægni eins hæstaréttardómara var dregin í efa vegna hlutabréfa sem hann átti í bankanum.

Niðurstaða MDE varðandi Milestone málið byggðist á því að Hæstiréttur hafi snúið við sýknudómi í héraði án þess að hlýða á vitnisburði sakborninga eða annarra viðeigandi vitna. Vísað var í mál Styrmis Þórs Bragasonar en honum voru dæmdar 7.500 evrur í bætur í júlí 2019.