Íslensk stjórnvöld reikna með að endurgreiðslu á ólögmætum ríkisstyrkjum til handa Becromal, Verne, Íslenska Kísilfélaginu, Thorsil og GMR Endurvinnslunnar verði lokið innan mánaðar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Eins og greint var frá fyrr í dag hefur ESA stefnt Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum vegna málsins.

„Íslensk stjórnvöld hafa undanfarna mánuði unnið að innleiðingu ákvörðunar ESA í samráði við stofnunina og umrædd fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að innan mánaðar verði búið að ganga frá endurgreiðslukröfum og ljúka þar með málinu," segir í tilkynningu.

Málið á rætur sínar að rekja til ríkisstyrkja til ofangreindra fyrirtækja sem voru veittir á árunum 2010 til 2012. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samkeppnisröskun sem hljótist af ríkisaðstoðinni sé óveruleg þar sem „sú hæsta hleypur á fáum milljónum króna. Tvö verkefnanna komust aldrei til framkvæmda og er því ekki um neina ríkisaðstoð eða endurkröfu að ræða í þeim tilvikum."