Íslenska ríkið neitar að greiða tveimur auglýsingastofum kostnað vegna tilboðsgerðar í auglýsingaherferðina Inspired by Iceland. Lögmaður stofanna segir að höfðað verði nýtt mál ef ríkið greiðir ekki reikningana. Frá þessu er greint ruv.is.

Viðskiptablaðið greindi frá því nýverið að auglýsingastofurnar ENNEMM og Hvíta húsið ætluðu að leita réttar síns vegna þátttöku þeirra í útboði vegna Inspired by Iceland á grundvelli fyrra máls. Þá sagði Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóri ENNEMM, að  auglýsingastofan myndi ekki fara í mál.

Málið sem um ræðir er að ríkinu var dæmt að greiða auglýsingastofunni Jónsson & Le’Macks rúmar fimm milljónir króna í skaðabætur auk 1,2 milljóna króna í málskostnað vegna þátttöku þeirra í Inspired by Iceland. Upphaflega var efnt til útboðs en það síðan afturkallað, þá hafði auglýsingastofan lagt fjármuni í verkefnið.

Nú hafa auglýsingastofurnar tvær sent ráðuneyti reikninga sína. Ráðuneytið neitar hins vegar að greiða þá, en gefur stofunum kost á frekari rökstuðningi. Í svari ráðuneytisins segir að ekki liggi fyrir rökstuðningur fyrir því að stofurnar hafi átt raunhæfa möguleika á að vera valdar. Þá hafi dómur Hæstaréttar ekki fordæmisgildi hvað varðar bótafjárhæð.

Páll Rúnar. M. Kristjánsson, lögmaður auglýsingastofanna segir þetta vekja furðu: „Þetta vekur furðu. Það er ljóst að hæstiréttur tók afstöðu til allra þeirra ágreiningsefna sem um ræðir. Það áttu allar stofur raunhæfa möguleika. Ríkið braut lög. Það olli umbjóðendum mínum tjóni. Og það tjón á að bæta. Þannig að dómurinn er klárlega fordæmisgefandi,“ sagði Páll í samtali við RÚV.

Páll hefur sent ráðuneytinu ítrekun, en verði það ekki við henni: „Þá eiga umbjóðendur mínir engan annan kost en að fara í mál. Aftur í sama málið.“