Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið að því undanfarin misseri að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins með því að gera reikninga úr bókhaldi ríkisins aðgengilega almenningi. Verkefnið er unnið í samræmi við fjármálastefnu fyrir árin 2017-2022, fjárlög fyrir árið 2017 og stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar um að stíga markviss skref til þess að opna bókhald ríkisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ráðuneytið hyggst opna vefinn opnirreikningar.is. Þar verða birtir greiddir reikningar úr fjárhagskerfi ríkisins. Gert er ráð fyrir því að vefurinn fari í loftið innan tíðar.

„Sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og fyrirkomulag birtingar verður með þeim hætti að viðkvæmar persónuupplýsingar verða undanþegnar, s.s. vegna læknisheimsókna, bóta- eða launagreiðslna. Mögulegt verður að takmarka birtingu fylgiskjala einstakra reikninga vegna öryggis- og persónuverndarsjónarmiða eða viðkvæmra viðskiptahagsmuna, t.a.m. þegar birting er til þess fallin að raska samkeppni,“ segir í tilkynningunni.