Þegar að Íslandsbanki er kominn í hendur ríkisins um áramót mun ríkið ráða yfir tveimur af þremur stóru viðskiptabönkunum auk þess sem það mun eiga 13% hlut í þeim þriðja, Arion banka.  Jafngildir það að ríkið ráði yfir 70% af bankamarkaði en slík ríkisumsvif eru óþekkt á vesturlöndum. Hlutfallið nú er sambærilegt því sem er í Rússlandi og hærra en Venesúela. Um áramótin mun Ísland verða í hóp með Hvíta-Rússlandi og Indlandi þar sem eignarhlutur ríkisins er hlutfallslega hæstur samkvæmt Alþjóðabankanum. Þetta kemur fram í nýjum pistli sem birtist á vef Samtaka atvinnulífsins.

Mikil áhætta fyrir ríkið

SA segir að í þessu felist mikil áhætta fyrir ríkið og að það sé brýnt að hraða sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Þau verðmæti sem skila sér í ríkissjóð fyrir söluna verður að nýta skynsamlega og ætti að nýta til að greiða niður skuldir. Einnig verður að tryggja að við söluna aukist ekki peningamagn í umferð með tilheyrandi þensluáhrifum, því þurfi að hleypa eigendum svonefndra aflandskróna úr landi.