Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að velta megi því upp hvort ríkið eigi að vera með birgðir af korni og öðrum nauðsynjavörum í ljósi þess að á hættutímum sé að öllum líkindum enginn möguleiki á að flytja vörur til landsins.

„Öll íslensk kaupskip eru skráð á alþjóðlegri skipaskrá í öðrum löndum, meðal annars Færeyjum, en á hættutímum geta stjórnvöld samkvæmt alþjóðalögum lagt hald á öll kaupskip til að tryggja aðföng sinna eigin landa. Við höfum ekki innleitt alþjóðlegu skipaskrána og eigum því engin kaupskip sem eru skráð hér," segir hann og bætir við að þetta sé ábyrgðarhluti af hendi ríkisvaldsins.

Óli Björn segir það í grunninn vera hlutverk hvers ríkis að tryggja öryggi borgaranna gagnvart innri og ytri ógn. Sé fólk sammála um það þurfi að skoða nánar hvað í því felist. „Í því felst til dæmis að við erum tilbúin að fjármagna hér sameiginlega lögreglu, landhelgisgæslu og landvarnir. Það gerum við annaðhvort með beinum framlögum og/eða samvinnu og samstarfi eins og varnarsamningnum," segir Óli Björn.

Hann segir orku vera eitt mikilvægasta hagsmunamál hvers ríkis en veltir því upp hvort það sé hlutverk stjórnvalda að tryggja að ríkið sé óháð öðrum um orku. „Stjórnvöld í Þýskalandi stóðu að minnsta kosti illa að verki í orkumálum. Í dag er staðan þannig að þeir eru nánast alveg háðir Rússlandi um orku sem er örugglega ein af ástæðum þess að Pútín taldi sér óhætt að ráðast inn í Úkraínu."

Að sögn Óla þurfi að tryggja að forsendur séu fyrir því að framleiðendur og innflytjendur geti tryggt sér aðgengi að nauðsynlegum aðföngum á hættutímum, hvort heldur er vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara. „Ríkið þarf ekki að reisa hér kornhlöður, heldur skapa heilbrigt umhverfi þannig að framleiðendur og innflytjendur matvæla geti sinnt þessu hlutverki. Það er eitt að ríkið skapi forsendur fyrir því að matvælaöryggi sé tryggt og fylgist með því en annað að ríkið taki það að sér."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .