Gert er ráð fyrir að fyrirtæki í ríkiseigu greiði árlega tvo milljarða í arð á árunum 2012 til 2015. Sala eigna á að skila ríkinu 7 milljörðum í kassann á þessu ári og 8 milljörðum árlega eftir það. Innan fjármálaráðuneytisins er unnið eftir svokallaðri Herðubreiðarskýrslu, áætlun um ríkisbúskapinn fram til loka árs 2015.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé ekki útfært nákvæmlega hvaða félög í eigu ríkisins skuli skila þessum tekjum. Þó séu ekki ýkja mörg sem komi til greina, ÁTVR, Landsvirkjun og fjármálastofnanir.

Ríkisfjármálaáætlunin var lögð fram í byrjun október sl. og er að sögn Guðmundar sú biblía sem unnið er eftir í dag. Síðast kom slík skýrsla út á árinu 2009.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.