Frá aldamótum hefur ríkið selt jarðir fyrir tæplega 2,7 milljarða króna. Langverðmætasta jörðin er Vífilsstaðir sem Garðabær keypti af ríkinu í apríl 2017 fyrir 558,6 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur þingmanns Miðflokksins.

Í svarinu er kaupverð gefið upp á verðlagi hverju sinni. Þó er mögulegt að áðurnefnd tala, 2,7 milljarðar, sé hærri þar sem yfirlitið geymir sölur á ríkisjörðum tilábúenda í samræmi við kaupheimildir þeirra samkvæmt jarðalögum.

Í fyrirspurninni var einnig farið fram á það hvaða réttindi og ítök, á borð við vatns-, veiði-, námu- og jarðhitaréttindi, fylgdu jörðunum og hvenær þau réttindi hefðu fylgt með í sölunni. Í svari ráðherra kemur fram að nær undantekningalaust hafi slík réttindi verið skilin frá jörðunum við sölu þeirra.

Tvennt er athyglivert við yfirlitið. Annars vegar það að engin jörð var seld frá ríkinu á árunum 2012-2014. Í annan stað er áhugavert að sjá að nöfn kaupenda eru í öllum tilfellum gefin upp. Það er áhugavert fyrir þær sakir að dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa ítrekað neitað að veita Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Miðflokksins, svör um það hverjir voru kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs á árunum 2009-2018. Ástæðan fyrir þeirri neitun er sú að ráðuneytið telur slíka birtingu ekki standast Persónuverndarlög. Umræddur Þorsteinn hefur beðið í um tvö ár eftir því að fá svar við spurningu sinni.

Viðskiptablaðið hefur beint fyrirspurn til Persónuverndar og Alþingis um hvað hvort birting svarsins nú standist téð lög um persónuvernd.