Bankasýsla ríkisins hefur sett af stað söluferli á að minnsta kosti 20% hlut ríkisins í Íslandsbanka með tilboðsfyrirkomulagi til innlendra og erlendra hæfra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila. Það jafngildir um 400 milljónum hlutum en Bankasýslan áskilur sér möguleika á að stækka útboðið og auka við fjölda seldra hluta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslunni sem hyggst greina frá útboðsgengi og endanlegum fjölda seldra hluta í sérstakri tilkynningu.

Fram kemur að söfnun tilboða hefst þegar í stað og getur lokið hvenær sem er með skömmum fyrirvara. Bankasýslan gerir ráð fyrir að niðurstöður söluferlisins verði birtar fyrir opnun markaða á morgun. Uppgjör viðskiptanna fer fram á mánudaginn næsta, 28. mars.

Miðað við hlutabréfaverð Íslandsbanka við lokun markaða í dag mun ríkissjóður fá í það minnsta 48,8 milljarða króna fyrir söluna. Verð á hlut í viðskiptunum verður hins vegar ákvarðað í tilboðsferlinu. Ríkissjóður fékk um 55 milljarða króna fyrir sölu á 35% hlut í bankanum í júní síðastliðnum

„Ákvörðun um útboðsgengi og endanlegan fjölda seldra hluta verður rökstudd af Bankasýslu ríkisins en endanleg ákvörðun er í höndum fjármála- og efnahagsráðherra. Þessi ákvörðun verður tekin þegar áætlaðar niðurstöður úr söluferlinu liggja fyrir og að teknu tilliti til meðal annars eftirfarandi þátta, dagslokagengis hlutabréfa Íslandsbanka á aðalmarkaði Nasdaq Iceland, markaðsaðstæðna, eftirspurnar ásamt öðrum þáttum,“ segir í tilkynningunni.

Bankasýslan hefur skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum á tímabilinu.

Umsjónaraðilar söluferlisins séu Citigroup Global Markets Europe AG, fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan SE. HSBC Continental Europe og Fossar markaðir munu hafa aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar. Þá munu ACRO verðbréf, Íslensk verðbréf, og Landsbankinn jafnframt starfa sem söluaðilar í útboðinu. STJ Advisors Group Limited er ráðgjafi Bankasýslu ríkisins. Lögfræðilegir ráðgjafar Bankasýslu ríkisins eru LOGOS og White & Case LLP.