Ný Ölfusárbrú er komin á samgönguáætlun og er áætlað að ríkissjóður leggi fjóra milljarða króna til nýrrar brúar á árunum 2015 til 2018. Í skoðun er að reisa nýja brú samhliða hugsanlegri virkjun í Ölfusá. Þessu samkvæmt gæti ný brú verið komin yfir Ölfusá fyrir árið 2020.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir í samtali við sunnlenska fréttablaðið Dagskránna sem kom út í dag, að brúarsmíðin hafi verið til skoðunar um nokkurt skeið þar sem núverandi brú sé komin til ára sinna og að verða lúin. Þá sé horft til þess að flýtframkvæmdinni þar sem um mannaflafrekt verkefni sé að ræða.

Fyrsta brúin yfir Ölfusá var vígð árið 1891. Hún þoldi ekki álagið þegar mjólkurbíll frá Reykjavík fór með annan í togi yfir hana árið 1944. Í desember ári síðar var ný brú yfir Ölfusá vígð og stendur hún enn.

„Segja má að undirbúningur sé þegar hafinn í þeim skilningi að nokkuð er umliðið síðan ákveðið var að kanna hvort og þá með hvaða hætti mæti samnýta brúargerð og hugsanlega virkjun í Ölfusá ef vilji stæði til þess á annað borð“, sagði Ögmundur.