Vísbendingar um að eignarhald ríkisins á viðskiptabönkum skekki samkeppni bankanna um fjármagn. Í grein Brynjars Arnar Ólafssonar í Viðskiptablaðinu , er bent á að áhættuálag á sértryggð skuldabréf Arion banka sé um 5 punktum hærra en á Landsbankanum og 14 punktum hærra en á Íslandsbanka. Áhættuálag er mismunur á ávöxtunarkröfu sértryggðra bréfa bankanna og  ríkisbréfa. Sértryggð skuldabréf er skuldabréf sem eru tryggð með undirliggjandi eignasafni, yfirleitt fasteignalánum bankanna.

Það sem af er október hefur Arion banki þurft að fjármagna útlán sín á um 0,72% yfir ríkistryggða vexti, Landsbankinn á 0,65% en Íslandsbanki á einungis 0,52%. Íslandsbanki er að fullu í eigu ríkissjóðs.

Í grein Brynjars er bent á að skuldabréfaútgáfur bankanna séu álíkar að stærð, viðskiptavakt sé á þeim öllum, sem auki seljanleika. Þá veiti Arion banki meiri upplýsingar um rekstur sinn þar sem bankinn er sá eini sem skráður er á markað. Því megi álykta að aðkoma ríkissjóðs valdi muninum í vaxtakostnaði. Ríkissjóður á Íslandsbanka að fullu og 98,2% hlut í Landsbankanum.