Bjarni Benediktsson, Fjármála- og efnahagsráðherra boðaði á Alþingi í dag að skoða þyrfti hvort íslenska ríkið gæti sótt skaðabætur á hendur þrotabús Kaupþings . Er það vegna fjórmenninganna sem voru á föstudag í seinustu viku dæmdir til fangelsisrefsingar í Hæstarétti vegna svonefnds Al-Thani máls.

Í máli Bjarna kom fram að bótaréttur gæti hafa myndast í ljósi þess að Kaupþingsmenn voru dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir háttsemi sem átti sér stað skömmu áður en Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlán, og að háttsemi þeirra kunni að hafa ollið ríkinu meira tjóni en ella. Þetta tók Bjarni fram í svari við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar Framtíðar, á Alþingi í dag.

Í Al-Thani málinu var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður í fjögurra ára fangelsi og þeir Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson, einn stærsti eigandi í Kaupþingi, í fjögurra og hálfs árs fangelsi.