Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú lokið endurskoðun á samstarfi sínu við Menntaskólann Hraðbraut og telur ekki forsendur fyrir endurnýjun á þjónustusamningi við skólann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu en þar er þessi niðurstaða byggjast einkum á skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Hraðbraut, áliti menntamálanefndar Alþingis og viðræðum sem ráðuneytið hefur átt í við forsvarsmenn skólans.

Þá kemur fram að ráðuneytið hafi náð náð samkomulagi við forsvarsmenn Menntaskólans Hraðbrautar um að nemendur sem hófu nám sl. haust verði gert kleift að ljúka námi sínu við skólann á vorönn 2012. Engin röskun verði því á stöðu nemenda sem nú stunda nám við skólann vegna þessa.

Uppgjör vegna ofgreiddra fjárframlaga mennta- og menningarmálaráðuneytis til Menntaskólans Hraðbrautar mun fara fram við lok gildistíma núgildandi þjónustusamnings þann 31. júlí næst komandi, segir í tilkynningunni.

Markmiðið var að stöðvar starfsemi Hraðbrautar, segir skólastjórinn.

Í tilkynningu frá Ólafi H. Johnson, skólastjóra og stofnanda Hraðbrautar, kemur fram að rekstri skólans verði hætt í núverandi mynd á árinu 2012.

„Tekið skal þó fram að ekkert í nýja þjónustusamningnum útilokar í sjálfu sér að nýnemar verði teknir í skólann næsta haust. Skólastjórn mun nú fjalla um stöðuna og meta framtíðarhorfur en augljóst er að afstaða ríkisins gjörbreytir forsendum fyrir skólarekstrinum,“ segir í tilkynningunni frá Ólafi.

„Ljóst er að ríkisframlag til skólans, samkvæmt nýjum þjónustusamningi, mun engan veginn  duga til að láta enda ná saman í rekstrinum fram á mitt ár 2012. Ég mun því taka persónulega ábyrgð á skólastarfinu og brúa bilið sem óhjákvæmilega myndast milli tekna og útgjalda.“

Þá segir Ólafur að niðurstaðan í samningaviðræðum við ríkið sé áfall, fyrst og fremst vegna hagsmuna nemenda og starfsfólks nú og síðar. Hin hliðin á málinu snúi svo að fjárfestingu í húsnæði og tækjum upp á hundruð milljóna króna sem óvissa ríki um.

„Hvorki sá þáttur málsins, né skarðið sem Hraðbraut skilur eftir sig í menntakerfinu, veldur ráðamönnum menntamála í landinu hins vegar áhyggjum,“ segir Ólafur.

„Markmið þeirra er einfaldlega að stöðva starfsemi Hraðbrautar, enda á einkarekstur hreint ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum landsins nú um stundir. Gildir þá einu á hvaða sviði atvinnulífs eða samfélags einkarekstur á sér stað. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og meirihluti menntamálanefndar Alþingis hugðust reyndar beita Ríkisendurskoðun fyrir sig gegn Hraðbraut en sú atlaga reyndist skeifhögg og hitti aðallega fyrir ráðuneytið sjálft og svo þingnefndina. Eftir stendur því að niðurstaða ráðuneytisins og menntamálanefndar er pólitísk aðför og ekkert annað.“