Fjármálaráðuneytið greindi frá því í gær að ríkissjóður hafi greitt upp eftirstöðvar Avens skuldabréfsins svokallaða, en þær námu 192 milljónum evra auk vaxta. Upphaflegt nafnverð bréfsins var 402 m. evra og var það gefið út árið 2010. Lokagjalddagi bréfsins var árið 2025 og er það því greitt níu árum á undan áætlun. Eftirstöðvar Avens skuldabréfsins voru greiddar af gjaldeyrisinnstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands en þær hafa vaxið nokkuð á árinu m.a. vegna uppgreiðslu Arion banka á víkjandi lánum ríkissjóðs, samtals að fjárhæð um 20 ma.kr.

„Við ákváðum að nýta okkur þessar uppgreiðslur frá Arion til að greiða þetta upp. Þetta hefur jákvæð áhrif á endurgreiðsluferilinn, það sem er eftir af erlendum lánum eru bara þrjár markaðsskuldabréfa útgáfur auk lítils pundaláns sem er á gjalddaga á næsta ári, sem er ekki nema rúmir 5 milljarðar. Miðað við spár um vaxtaþróun erum við að spara 800-1000 milljónir á ári á næstu árum,“ segir Esther Ragnarsdóttir hjá Fjármálaráðuneytinu í samtali við Viðskiptablaðið.

Ríkissjóður keypti á sínum tíma eignavörð skuldabréf í Avens B.V. sem var félag í eigu gamla Landsbankans. Eignir félagsins voru fyrst og fremst íslensk skuldabréf og varð félagið stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands. Við bankahrunið eignaðist Evrópski Seðlabankinn kröfu á Avens og var síðar gert samkomulag við 26 íslenska lífeyrissjóði um kaup þeirra á stórum hluta krónueigna Avens gegn greiðslu í evrum.