Hugmyndir um að byggja 120 þúsund tonna álver á Hafursstöðum í Skagabyggð komu fram síðasta sumar en slíkt álver þyrfti 206 Mw af raforku. Fréttirnar þóttu áhugaverðar í ljós þess að álverð hefur verið mjög lágt undanfarin misseri og staðan á íslenskum orkumarkaði þannig að nánast engin orka er til.

Sveitarfélög á Norðurlandi vestra er umhugað um að byggður verði upp iðnaður á svæðinu. Í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar til fjárlaganefndar fyrir áramót er skorað á nefndarmenn "að setja Norðurland vestra í forgang þegar kemur að næstu stóru iðnaðaruppbyggingu á landinu."

Vildu 75 milljónir í þrjú ár

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) sendi fjárlaganefnd einnig erindi þar sem óskað var eftir 75 milljóna króna framlagi á ári frá 2016 til 2018. Óskað var eftir fjárstuðningnum til að standa straum af kostnaði vegna "markaðssetningar, undirbúnings  og skipulags vegna mögulegrar uppbyggingar stóriðju á iðnaðarlóð við Hafursstaði á Norðurlandi vestra".

Fjárlaganefnd svaraði kallinu með því að veita SSNV 30 milljónir króna á fjárlögum þessa árs vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis á Hafurstöðum í Skagabyggð. Ekki var einhugur í fjárlaganefnd um þessa fjárveitingu. Í áliti minnihlutans kemur meðal annars fram að „byggðastefna sem byggir á handahófskenndum hugmyndum um uppbyggingu álvers á Skagaströnd" sé ekki líkleg til árangurs.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að í raun séu þessar 30 milljónir hugsaðar sem rannsóknarfé.

„Það þurfa að fara fram athuganir áður en ráðist er svona verkefni," segir Vigdís. „Þetta er áþekkt því þegar við veittum rannsóknarfé til Fjarðarheiðarganga. Það fylgir því gríðarleg innviðauppbygging ef reisa á álver. Af meirihluta fjárlaganefndar var þetta því hugsað á þann hátt að verið sé að taka stöðumat á því hvort þetta sé raunhæfur kostur eða ekki."

Vigdís segir að áður en uppbygging hefjist sé nauðsynlegt að kanna hvort svæðið sé tækt til þess að taka á móti iðnaði.

„Ég tel  til dæmis að þetta hafi skort á Bakka," segir hún, en þar eru hafnar framkvæmdir við kísilverksmiðju PCC. "Þar var rokið af stað og byrjað að grafa göng og síðan þurfti að veita 1.300 milljónum til viðbótar í verkið því það hafði ekki verið rannsakað nógu vel. Þetta var náttúrlega skelfilegt fyrir skattgreiðendur. Í raun má segja það sama um Vaðlaheiðargöng. Þar eru mikil vandræði í dag því þar fóru ekki fram nægilega miklar rannsóknir. "

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .