Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða Stjörnugrís hf., sem rekur svínabú, 39 milljónir króna. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.

Forsvarsmenn Stjörnugríss höfðuðu mál vegna þess að þeir töldu að álagning og innheimta búnaðargjalds væri andstæð lögum. Krafðist fyrirtækið þess að fá um 52 milljónir króna endurgreiddar. Dómurinn féllst á að ríkið endurgreiddi þær 39 milljónir sem renna til Bændasamtaka Íslands. Í dómnum segir að þó löggjafinn hafi falið samtökunum að fela bændum ákveðna þjónustu snerti þau verkefni í afar litlum mæli framleiðendur svínaafurða. Dómurinn taldi hins vegar ekki rétt að ríkið endurgreiddi þann hluta gjaldsins sem rann í Bjargráðasjóð, en það voru um 13 milljónir. Ríkinu var einnig gert að greiða Stjörnugrís 1,5 milljónir í málskostnað.