Ís­lenska ríkið var með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur í dag dæmt til að greiða Vínnesi ehf. rúm­lega fjórar milljónir króna, auk vaxta og dráttar­vaxta, í máli sem varðaði á­lagningu skila­gjalds á um­búðir drykkjar­vara. Að­eins var fallist á kröfur inn­flytjandans að litlu leyti en dóm­krafan hljóðaði upp á 250 milljónir króna auk vaxta.

Málið var höfðað til endur­greiðslu á greiddu skila­gjaldi árin 2016-19. Taldi Vínness að á­lagningin fæli í sér ó­lög­mæta skatt­lagningu en gjaldið rennur til Endur­vinnslunnar hf. Það fé­lag er meðal annars í eigu Öl­gerðarinnar og Coca-Cola á Ís­landi. Gjaldinu er ætlað að standa undir starf­semi fé­lagsins en inni­falið í því er lög­bundin hagnaðar­skylda sem síðan felur í sér arð­greiðslur til keppi­nauta Vínness.

Málinu var upp­haf­lega vísað frá á grund­velli ó­skýrrar kröfu­gerðar en Lands­réttur felldi þann úr­skurð úr gildi og sendi málið aftur heim í hérað.

Fallist að litlu leyti á ólögmætt framsal

Í lögum sem um skila­gjaldið gilda var að finna heimild handa ráð­herra til að á­kveða fjár­hæð þess með reglu­gerð en sú heimild hefur ekki verið nýtt. Taldi Vínnes að sú heimild ein og sér fæli í sér ó­lög­mætt fram­sal skatt­lagningar­valds sem ætti að leiða til þess að fallist yrði á kröfur fé­lagsins. Á það féllst dómurinn ekki og taldi þá máls­á­stæðu í raun fela í sér lög­spurningu.

Á hinn bóginn taldi dómurinn að reglu­gerðar­breyting, sem átti tók gildi í árs­byrjun 2016, þar sem fjár­hæð um­sýslu­þóknunar á ein­stakar tegundir um­búða var hækkað, orkaði tví­mælis. Ekki hefði verið heimild í lögum fyrir þeirri skatt­lagningu tíma­bilið 15. janúar 2016 til 15. maí 2017. Rétt gjald sam­kvæmt texta laganna á þessum tíma var að mati dómsins rúm­lega fjórar milljónir króna. Sú fram­kvæmd var felld inn í lög eftir það tíma­mark og því gild eftir það.

„Að slepptri framan­greindri máls­á­stæðu um ó­lög­mætt fram­sal lög­gjafans á skatt­lagningar­valdi, sem ekki er fallist á nema að afar litlu leyti, telur dómurinn að engin af öðrum máls­á­stæðum [Vínness] geti hróflað við skila­gjaldinu sem slíku og þær séu hald­lausar í þeim efnum,“ segir í dóminum.

Almannahagsmunir að baki gjaldinu

Gjaldið væri lagt á sam­kvæmt skýru laga­boði, byggðist á al­manna­hags­munum og væri greitt að lang­stærstum hluta til baka til neyt­enda við skil þeirra á ein­nota um­búðum í endur­vinnslu. Að mati dómsins skipti engu þótt hluti þess rynni til sam­keppnis­aðila og ekki fallist á að það bryti gegn jafn­ræði gjald­enda.

„Í þessu sam­bandi at­hugist, eins og að framan greinir, að eðli og upp­setning þessarar skatt­heimtu er með þeim hætti að megin­til­gangur með henni er um­hverfis­vernd og afl­vaki laga­setningarinnar hags­munir al­mennings. Á allt þetta fyrir­komu­lag sér víð­tæka skír­skotun til skuld­bindinga sem ís­lenska ríkið hefur undir­gengist sam­kvæmt [EES-samningnum],“ segir í dóminum.

Í málinu var einnig byggt á því að skatt­lagningin bryti gegn á­kvæði stjórnar­skrárinnar um fé­laga­frelsi og réttsins til að standa utan fé­laga. Var meðal annars vísað til dóms Hæsta­réttar um búnaðar­gjald í þeim efnum. Á það féllst dómurinn ekki heldur.

„Engan vegin verður á það fallist að [skila­gjaldið] sé Endur­vinnslunni hf. til frjálsrar ráð­stöfunar, heldur verður því slegið föstu, að mati dómsins, að skatt­greiðslum er hér ráð­stafað fyrst og fremst til al­manna­hags­muna en ekki sér­hags­muna […]. Hér verður einnig horft til þess að til­gangur með svo­kölluðu búnaðar­gjaldi var að miklu leyti, að ein­falda á­lagningu gjalda í land­búnaði, bæta inn­heimtu þeirra og styrkja inn­heimtu­úr­ræði. Því verður ekki líkt saman við þá skýru al­manna­hags­muni sem liggja að baki skila­kerfi ein­nota drykkjar­vöru­um­búða,“ segir í dóminum.

Arðsheimild ekki nýtt

Að endingu lagði dómurinn mat á þá stað­reynd að í lögunum var áður á­kvæði um að hluta­fé­laginu væri heimilt að út­hluta hlut­höfum sínum arði en að mati Vínness átti það að leiða til þess að skatt­heimtan stæðist ekki. Sagði dómurinn að ekkert lægi fyrir um að það hefði verið gert og fyrir­sjáan­legt væri að það yrði rekið með tapi. Ekkert benti til þess að fé­lagið væri hagnaðar­drifið þótt upp­safnaður hagnaður árin 2016-18 væri 400 milljónir króna.

Dómurinn féllst ekki á þá máls­á­stæðu og byggði það meðal annars á því að arðs­út­hlutunar­heimildin hefði ekki verið nýtt. „Þá hlýtur að skipta máli, við heildar­mat á því hvaða þýðingu stofnun þessa fé­lags og heimild til að greiða hóf­legan arð út úr því hafi fyrir sakar­efni málsins og stefnu­kröfur, sú staða að ís­lenska ríkið hefur gefið þá yfir­lýsingu undir rekstri málsins að enn sé unnið að sölu um­tals­verðs hluta í fé­laginu sem stendur til boða öllum á­huga­sömum,“ segir í dóminum.

Skatt­heimtan stóðst að mestu leyti. Hefði dómur fallið ríkinu al­farið í óhag má á­ætla að um tólf milljarða kostnaður hefði fallið á það og fé­lagið. Í ljósi niður­stöðunnar nú verður að telja lík­legt að heildar­kostnaður, krefjist aðrir gjald­endur endur­greiðslu á grund­velli dómsins, verði tals­vert undir einum milljarði króna.