*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 7. júlí 2015 15:23

Ríkið sýknað af kröfu fyrrverandi forstjóra Straums

Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums, fór fram á 600 milljónir vegna skatta sem hann taldi ofgreidda.

Ritstjórn

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu Þórðar Már Jóhannessonar um 596 milljónir króna vegna skatta sem hann taldi ofreiknaða. Þórði var gert að greiða 900.000 krónur í málskostnað.

Þórður Már keypti hlutabréf í Straumi á genginu 3,15 á árinu 2003, en þá var hann forstjóri bankans. Árið 2004 seldi hann hlutabréfin aftur til félagsins á genginu 6,55.

Ágreiningurinn snerist um það hvort söluhagnaðurinn teldist sem launatekjur eða ekki. Ríkisskattanefnd og yfirskattstjóri héldu því fram að sá ágóði sem Þórður Már hafði af því að selja Straumi bréf sín væru launatekjur í skattalegu tilliti.

Héraðsdómur fellst á niðurstöðu yfirskattstjóra í dómnum sem kveðinn var upp í dag. Í niðurstöðukafla dómsins segir að stefnandi hafi, í nafni Brekku ehf., notið ótakmarkaðs söluréttar á bréfunum og hafi því átt rétt á því að Straumur hf. keypti þau aftur af honum skilyrðislaust. Ljóst sé að í úrskurði yfirskattanefndar séu tekjur Brekku ehf., einkahlutafélags Þórðar, réttilega ákvarðaðar sem skattskyld hlunnindi hans.