Íslenska ríkið var í liðinni viku sýknað af kröfu landeigenda Geysis um greiðslu tæplega hundrað milljón króna auk vaxta og dráttarvaxta. Landeigendur töldu að ríkið hefði farið á svig við matsgerð gerðarmanna en dómurinn féllst ekki á það.

Sem kunnugt er keypti íslenska ríkið Geysissvæðið árið 2016 en fyrir hafði það átt um fjórðungshlut í jörðinni. Kaupverð lá ekki fyrir og voru aðilar sammála um að tilnefna matsmenn til að leggja mat á sanngjarnt verð fyrir jörðina. Þrír matsmenn luku störfum í desember 2017 og var niðurstaða meirihluta þeirra að virði jarðarinnar væri tæplega 1,5 milljarðar króna. Ríkinu bæri því að greiða ríflega 1,1 milljarð króna fyrir hlutinn.

Ríkið sætti sig ekki við þá niðurstöðu og óskaði yfirmats en yfirmatsmenn voru fimm talsins. Niðurstaða þeirra lá fyrir í apríl í fyrra. Niðurstaða þeirra var að á kaupdegi hefði matsandlagið verið ríflega milljarðs króna virði að framreiknað með tilliti af byggingarvísitölu ætti það að vera 1,1 milljarður króna. Þá ætti kaupverðið að bera vexti frá undirritun til greiðsludags.

Ríkið taldi sig ekki bundið af reiknuðum verðbótum matsgerðarinnar og ekki heldur af niðurstöðu um greiðslu vaxta. Greiddi ríkið því landeigendum einn milljarð króna og níu milljónum betur í júní í fyrra. Landeigendur sættu sig ekki við það og stefndu málinu fyrir dóm til heimtu vaxta og verðbóta.

Fóru út fyrir hlutverk sitt

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að vald matsmanna hafi ekki falið í sér gerðadómsvald þar sem samningur aðila hefði ekki kveðið á um slíkt. Ekki hafi verið samið um það í kaupsamningi að kaupverðið myndi hækka með tilliti til ákveðinna vísitalna. Ríkið væri því ekki bundið af niðurstöðu yfirmatsmanna um hækkun.

„Af þeim tíma sem leið frá því að kaupsamningurinn var undirritaður og þar til kaupverðið var innt af hendi tók því sú málsmeðferð sem málsaðilar höfðu samið um 21 mánuð. Vegna reynslu sinnar máttu lögmenn málsaðila einnig gera ráð fyrir að það tæki nokkurn tíma að finna matsmenn til þess að vinna verkið. Það er því mat dómsins að aðstæður í þessu máli séu ekki svo sérstakar og afbrigðilegar að skýra beri kaupsamninginn þannig að telja verði, þrátt fyrir að þess sé ekki getið í texta hans, að samið hafi verið um að kaupverðið bæri almenna vexti frá undirritun kaupsamningsins að greiðsludegi,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Var það niðurstaða dómara málsins að matsmönnum hefði aðeins verið falið að meta höfuðstól kaupverðsins en ekki aukaatriði á borð við vexti og verðbætur. Með þeirri niðurstöðu hafi þeir farið út fyrir hlutverk sitt og því var ríkinu heimilt að virða þau fyrirmæli að vettugi. Ríkið var sýknað af þeim sökum. Málskostnaður milli aðila féll niður.