Íslenska ríkið hefur verið sýknað af kröfu Hróbjarts Jónatanssonar sem krafðist þess að íslenska ríkið myndi greiða honum skaðabætur vegna úrskurðar Landsréttar í máli Hróbjarts gegn Frjálsa lífeyrissjóðinum. Taldi Hróbjartur úrskurð Landsréttar vera andstæðan lögum og hafa farið út fyrir kröfur málsaðila. Þetta kemur fram í dómi héraðsdóms Reykjavíkur.

Tildrög málsins eru þau að Hróbjartur kærði úrskurð héraðsdóms um að afhenda honum ekki ákveðin gögn frá Frjálsa lífeyrissjóðnum á grundvelli laga um meðferð einkamála til Landsréttar. Vildi hann að úrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi þá vildi hann einnig málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Lífeyrissjóðurinn krafðist hins vegar að dómur héraðsdóm yrði staðfestur auk kærumálskostnaðar. Í úrskurði málsins þann 2. maí 2019 hafnaði Landsréttur kröfu Hróbjarts og gerði honum að greiða sjóðnum 350.000 krónur í málskostnað.

Taldi úrskurð Landsréttar fara út fyrir kröfur

Hróbjartur taldi að úrskurður Landsréttar í máli hans gegn Frjálsa lífeyrissjóðsins hafi verið andstæður lögum þar sem Landsréttur hafi farið út fyrir kröfur málsaðila og tekið efnislega afstöðu til „dómkrafna sem stefnandi hafi haft upp í héraði og ekki hafi hlotið efnislega meðferð þar.“ Til þess að komi geti til bótaábyrgðar vegna dómsúrlausnar þarf málsaðili að gera kröfu um ásetning eða vítavert gáleysi dómara.

Taldi hann að dómur Landsréttar hafi valdið sér tjóni fyrir rúmar tvær milljónir króna sem að ríkið bæri skaðabótaábyrgð á. Innifalið í þessum kostnaði var lögmannskostnaður, kærugjöld, málskostnaður til Frjálsa lífeyrissjóðsins og virðisaukaskattur af lögmannskostnaði. Þá krafðist hann einnig dráttarvaxta frá uppkvaðningu úrskurðar Landsréttar.

Héraðsdómur féllst á að að Landsrétti hafi verið heimilt að aðlaga kröfugerð Hróbjarts í málinu. Var því ekki hægt að líta svo á að niðurstaða Landsréttar hafi brotið í bága við lög og kröfu Hróbjarts um saknæma og ólögmætta háttsemi af hálfu dómara hafnað. Þá var ríkið var sýknað af öllum kröfum og málskostnaður felldur niður.

Vildi gögn um fjárfestingar Frjálsa lífeyrisjóðsins

Upphaf málsins má rekja til ársins 2018 þegar að Hróbjartur taldi sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af fjárfestingum Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem hann er sjóðfélagi í. Hann krafðist að sjóðurinn myndi afhenda honum ákveðinn gögn á grundvelli XII. kafla laga nr 91/1991 um meðferð einkamála sem snýr að öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað.

Í umfjöllun Morgunblaðsins frá árinu 2018 segir að Hróbjartur hafi krafist þess að honum yrði afhentar fundargerðir lífeyrissjóðsins um ákvarðanir varðandi lánveitingar og fjárfestingar í tengslum við kísilmálmverksmiðju í Helguvík en sjóðurinn tapaði milljarði á þeirri fjárfestingu. Þá vildi hann einnig fá afhentan rekstrarsamning á milli lífeyrissjóðsins og Arion banka en bankinn seldi hlutabréf fyrir 37,9 milljarða, um 49% af hlutabréfaeign sjóðsins á þeim tíma og benti á að slík viðskipti kostuðu sjóðinn fjármuni. Taldi Hróbjartur sig því hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af fjárfestingum lífeyrissjóðsins.

Kröfu Hróbjarts var hafnað í héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til þess hluti krafna Hróbjarts varðaði tiltekinn lögaðila án þess að honum hafi verið gefinn kostur á að taka til varna í málinu. Þá taldi héraðsdómur jafnframt að Hróbjartur hefði ekki veitt fullnægjandi rök fyrir því að undantekningarheimild um öflun sönnunargagna yrði beitt, án þess að dómsmál hefði verið höfðað.