Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfu Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms frá því í maí 2016. Í málinu var deilt um hvort að skattleggja ætti tekjur af kauprétti á hlutabréfum í Kaupþingi sem Sigurður fékk, sem stjórnarlaun eða almenn laun á grundvelli tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands.

Ásamt því að hafa sýknað íslenska ríkið af öllum kröfum Sigurðar, þá þarf hann einnig að greiða milljón krónur til ríkisins í málsvarnarkostnað.

Námu tekjur Sigurðar vegna kaupa hans á hlutabréfum í bankanum árin 2006 til 2008 1,6 milljörðum króna. Nam fjárhæð álagsins vegna kaupanna 400 milljónum króna.

Í dómi héraðsdóms sem Hæstiréttur hefur nú staðfest kemur fram að samkvæmt lögum um hlutafélög „skal formaður félagsstjórnar ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig".

Í umfjöllun um dóminn á vefsíðu ríkisskattstjóra segir „Þau störf sem stefnandi tók að sér að inna samkvæmt ráðningarsamningi ber að skýra með hliðsjón þessu. Helsta verkefni stefnanda var að samræma störf hinna ýmsu alþjóðlegu útibúa og dótturfyrirtækja, gegna starfi stjórnarformanns systur- og dótturfélaga og leita tækifæra til að þróa starfsemi bankans,“

Taldi héraðsdómur með vísan til þessa að kaupréttur stefnanda hafi verið hluti af launum hans sem stjórnarmanns í Kaupþingi. Með vísan í 16. gr. tvítsköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands var það því niðurstaða héraðsdóms að tekjur Sigurðar vegna kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi væru skattskyldar á Íslandi.