Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað skaða- og miskabótakröfu Skarphéðins Bergs Steinarssonar, fyrrum stjórnarformanns FL Group, á hendur ríkinu vegna kyrrsetningar á eigum hans í apríl árið 2010 þegar skattrannsóknarstjóri rannsakaði hugsanleg skattsvik FL Group sem talin voru hafa átt sé stað í formannstíð Skarphéðins.

Skarphéðinn hafði höfðað mál á þeim forsendum að kyrrsetningaraðgerðin hafi verið ólögmæt og vegið að fjárhagslegri afkomu fjölskyldu hans auk þess sem upplýsingum um hana hafi verið lekið í fjölmiðla sem komið hafi sér illa. Þess má geta að kyrrsetningin var síðar numin úr gildi þar sem lagaheimild til hennar var ekki fullnægjandi

Í niðurstöðu dómsins segir að Skarphéðinn Berg hafi ekki getað sýnt fram á fjártjón sitt auk þess sem rökstuðningur fyrir miskabótakröfu sé óljós. Þá hafi ekki þótt sannað að fréttum af kyrrsetningargerðinni hafi verið lekið í fjölmiðla.