Ríkið tapaði á bilinu 347,7 til 349 milljarða króna á falli viðskiptabankanna þriggja, falli Sparisjóðsins í Keflavík, Byrs, VBS fjárfestingarbanka, Askar Capital og Saga Capital. Þá nemur tap ríkisins vegna falls Sjóvár á bilinu 3,4 til 4,8 milljörðum króna. Til viðbótar þessu nemur bakábyrgð ríkisins vegna SPRON 96,7 millöjrðum króna. Bakábyrgð vegna falls Straums-Burðaráss er hins vegar ekki lengur fyrir hendi.  Kostnaður ríkisins vegna ýmissa ábyrgða sem féllu á ríkið við fall bankanna nemur samtals 31 milljarði króna.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, framlög, ábyrgðir og lánveitingar til banka og sparisjóða og fleiri aðila.

Skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis að frumkvæði Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns.

Í skýrslunni kemur fram að samtals nemi tap Seðlabankans og ríkissjóðs vegna falls Glitnis, Kaupþings og Landsbankans 267,2 milljörðum króna. Á móti standi kröfur í þrotabú banka og fjármálafyrirtækja auk ýmissa annarra krafna. Að mati Ríkisendurskoðunar er of snemmt að fjalla um árangur af umsýslu þessara krafna eða hve mikið af þeim mun að lokum endurheimtast.

Þá kemur fram í skýrslunni að kröfur ríkissjóðs á VBS fjárfestingabanka, Askar Capital og Saga Capital hafi numið samtals 52 milljörðum króna. Öll félögin hafa farið í þrot og telur Ríkisendurskoðun kröfurnar tapaðar.

Þá bendir Ríkisendurskoðun á að ríkissjóður hafi upphaflega veitt 11,6 milljarða króna lán til að reisa Sjóvá við. Krafan hafi verið færð til eignaumsýslufélags Seðlabankans árið 2010 og henni síðan breytt í hlutafé. Við söluna á 52% hlut í Sjóvá hafi ríkið tapað á bilinu 3,4 til 4,8 milljörðum króna. Í skýrslunni segir að tapið komi ekki á óvart enda hafi ríkið greitt 11,6 milljarða króna fyrir eignarhlut í félagi sem í reynd hafi verið gjaldþrota.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér