Íslenska ríkið laut í gras í Hæstarétti í dag í skaðabótamálum höfðuðum af landsréttardómurunum Eiríki Jónssyni og Jóni Höskuldssyni. Var það dæmt til að greiða Jóni 8,5 milljón króna auka vöxtum og dráttarvöxtum en í máli Eiríks var skaðabótaskylda viðurkennd.

Dómurinn, sem var skipaður fimm setudómurum, þar af þremur fyrrverandi hæstaréttardómurum, sneri með því dómi Landsréttar en sá hafði sýknað ríkið af kröfunni um skaðabætur en fallist á miskabætur. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði og töldu að fallast ætti á kröfu mannanna. Sama niðurstaða varð í héraði.

Eiríkur og Jón voru í hópi fimmtán umsækjenda um embætti við Landsrétt, þegar rétturinn var skipaður í fyrsta sinn, sem metnir voru hæfastir til starfans. Þeir voru einnig í hópi þeirra fjögurra sem færðir voru til af dómsmálaráðherra áður en skipað var í dóminn.

Áður höfðu Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni verið dæmdar miskabætur í Hæstarétti vegna málsins. Kröfu um skaðabætur var hins vegar hafnað þar sem þeim hafði ekki tekist að sýna fram á það að kjör þeirra sem dómarar yrðu betri en í störfum þeirra sem lögmenn. Af þeim sökum þótt tjón ósannað og kröfunni hafnað.

Tókst að leiða líkur að fjárhagslegu tjóni

Í dómi Hæstaréttar var byggt á dómum í málum Ástráðs og Jóhannesar en þar hafði því verið slegið föstu að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefði ekki fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins við skipan dómara við Landsrétt. Sagði í dóminum að ekki hafi verið gerð viðunandi grein fyrir því, af hálfu ríkisins, með hvaða hætti samanburður ráðherrans á Eiríki, Jóni og öðrum umsækjendum fór fram.

Af því leiddi að málsmeðferð hafi verið ólögmæt og að „nægar líkur [leiddar að því að] forsvaranlegt mat dómsmálaráðherra á umsóknunum og á hæfni [þeirra] og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefði eins og hér hagaði til leitt til þess að [þeir] hefðu verið skipaðir dómarar umrætt sinn.“

Eiríkur hafði starfað sem prófessor í skaðabótarétti við Háskóla Íslands en mismunur á launum hans þar, samanborið við laun landsréttardómara, var rúmar ellefu milljónir króna á ársgrundvelli. Eiríkur krafðist aðeins viðurkenningar á skaðabótaskyldu en hafði áður fengið greiddar miskabætur á grunni fyrri dóma Hæstaréttar.

Jón hafði verið héraðsdómari um árabil en hann gerði kröfu um 23 milljónir króna í skaðabætur, það er mismuninn á launum héraðsdómara og landsréttardómara út starfsævi hans, og hærri miskabóta en í fyrri málunum tveimur. Síðari krafan var studd þeim rökum að tilfærslan hefði falið í sér verulega meingerð gegn æru hans og persónu í ljósi dómarareynslu hans.

Hæstiréttur féllst á að dæma Jóni 8,5 milljónir króna í skaðabætur að álitum auk einnar milljónar króna í miskabætur. Jóni höfðu verið dæmdar 1.300 þúsund krónur í miskabætur í Landsrétti. Báðum voru þeim dæmdar 3,5 milljón króna í málskostnað á öllum dómstigum.