Hækka á áfengisgjald sem framleiðendum og innflytjendum áfengis er gert að greiða, um 2,5% um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í samantekt Félags atvinnurekenda (FA) er bent, að með þessu muni hæstu áfengisskattar í Evrópu hækka enn frekar.

FA reiknaði áhrif hlutar ríkisins af þriggja lítra kassa af léttvíni, 750 ml léttvínsflösku, eins lítra vodkaflösku og hálfs lítra bjórdós miðað við meðalverð varanna í Vínbúðinni.

Auk áfengisgjaldsins rennur álagning ÁTVR, skilagjald af umbúðum og virðisaukaskattur á áfengi til ríkisins.

Við breytinguna hækkar hlutdeild ríkisins í verði léttvínskassa úr 81,6% í ár upp í 83,1% eða um rúmlega 92 krónur. Af verði léttvínsflöskunnar mun 65,1% renna til ríkisins á næsta ári í stað 64,1% á þessu ári.

„Skýringin á því að áfengisgjald er mun hærri hluti útsöluverðs léttvínskassa en léttvínsflösku er að hér er um meðaltöl að ræða og kassavínin eru að jafnaði ódýrari vín en þau sem sett eru á flöskur. Áfengisgjaldið leggst mun þyngra á ódýrari vín, sem almenningur leyfir sér fremur að kaupa, en þau dýrari af því að gjaldið miðast við áfengisinnihald en ekki innkaupsverð vörunnar," segir í samantekt FA.

Hlutdeild ríkisins af vodkaflösku hækkar úr 92,3% í ár í 94,1%. Þá tekur ríkið í dag 76,6% af verði bjórdósarinnar en á næsta ári 77,8% ef hækkun áfengisgjaldsins nær fram að ganga.