„Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona viðskipti. Þarna fór tími spillist. Það er engin ástæða til að sýna allar þessar auglýsingar í bíói,“ segir Brynjólfur Ari Sigurðsson. Hann fór með fjölskyldu sinni tvisvar sinnum að sjá kvikmyndina um ævintýri Tinna í þrívídd í Háskólabíó og Smárabíó í fyrrahaust og þurfti að bíða í 20 mínútur yfir auglýsingum og ótextuðum sýnishornum úr nýjum myndum á ensku áður en Tinna-myndin byrjaði.

„Þetta er góð mynd en það var saman sagan þar alltaf þegar ég fer þarna í bíó. Þarna er verið að halda upplýsingum frá manni um réttan sýningartíma. Ég er ekki sáttur við það,“ segir Brynjólfur Ari og kvartaði vegna málsins til Neytendastofu.

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur ákveðið að grípa ekki til aðgerðar vegna kæru Brynjólfs á ákvörðun Neytendastofu frá 9. desember 2011. Brynjólfur Ari hafði kært fyrri ákvörðun Neytendastofu sem taldi að ekki væri ástæða til aðgerða vegna kvörtunar Brynjólfs Ara sem snerti sýningartíma kvikmyndahúsa.

Málavextir eru þeir að um miðjan nóvember sl. sendi Brynjólfur Ari inn ábendingu til Neytendastofu. Hann hafði farið í kvikmyndahús kvöldið áður en kvörtun hans snerist upp sýningartíma kvikmyndarinnar. Auglýst hafi verið að kvikmyndasýningin ætti að hefjast kl. 10:20 en hún hafi ekki hafist fyrr en kl. 10:42. Þannig hafi verið um að ræða 22 mínútna seinkun á auglýstum sýningartíma. Í ábendingunni er tekið fram að þetta sé „örugglega brot á einhverjum reglum og að kærandi vilji að það verði kannað,“ eins og það er orðað í úrskurði áfrýjunarnefndar.

Neytendastofa svaraði erindinu og þar er tekið fram að alkunna sé að auglýsingar séu spilaðar í kvikmyndahúsum fyrir sýningar á kvikmyndum. Þetta sé venja í flestum kvikmyndahúsum. Sumir sýningargestir telji þannig myndbrot sem sýnd séu úr væntanlegum kvikmyndum sjálfsagðan hluta þeirrar þjónustu sem keypt sé. Neytendastofa taldi ekki að þessir viðskiptahættir falli undir þau lög og reglur sem stofnunin hafi eftirlit með.

Brynjólfur Ari svaraði samdægurs með tölvubréfi þar sem hann spurði „hvort stofnunin sé ekki að grínast með svar sitt.“ Um hafi verið að ræða seinkun upp á 20 mínútur á auglýstum sýningartíma. Þá var Brynjólfur Ari ekki sammála því að Neytendastofa eigi ekki að skipta sér af þessu. Í lok tölvubréfsins bað Brynjólfur Ari um að ábending hans yrði ekki hunsuð heldur verði þeim fyrirmælum beint til kvikmyndahúsa að auglýsa réttan sýningartíma, upphaf og lengd sýningar.

Eins og fram kemur í upphafi taldi Neytendastofa ekki ástæðu til að aðhafast vegna þessa og áfrýjunarnefnd neytendamál ekki heldur.

Áhugasamir geta nálgast 8 blaðsíðna úrskurð áfrýjunarnefndarinnar HÉR .