*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 14. nóvember 2017 15:33

Ríkið þarf að endurgreiða 355 milljónir

Rukkun ríkisins á gjöldum fyrir að flytja inn vörur með litlum eða engum tollum stangast á við stjórnarskrá.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Innheimta ríkisins á sérstöku útboðsgjaldi á heimild til að flytja inn búvörur á engum eða lægri tollum stangast á við stjórnarskrá að því er Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag.

Þarf ríkissjóður því að endurgreiða fyrirtækjunum Sælkeradreifing, Innnes og Högum samtals um 355 milljónir króna í oftekin gjöld, en útboðsgjaldið hefur farið hækkandi undanfarin misseri samhliða vaxandi eftirspurn eftir innfluttum búvörum að því er Félag atvinnurekenda greinir frá.

Endurgreiðslurnar þegar numið hátt í 2 milljörðum

Forsaga málsins er sú að í janúar 2016 dæmdi Hæstiréttur ríkið til að endurgreiða sömu þremur innflutningsfyrirtækjum oftekið útboðsgjald. Í dómum Hæstaréttar var því slegið föstu að útboðsgjaldið væri skattur og Alþingi mætti samkvæmt stjórnarskránni ekki framselja landbúnaðarráðherra val um það hvort skattur væri lagður á eða ekki. 

Alls má ætla að endurgreiðslur ríkissjóðs til innflutningsfyrirtækja vegna þessarar niðurstöðu Hæstaréttar hafi numið hátt í tveimur milljörðum króna segir á vef félagsins. Í kjölfar samskonar úrskurðar Héraðsdóms í mars 2015 breytti Alþingi ákvæðum búvörulaga um úthlutun tollkvóta með því að fella út þann möguleika ráðherra að úthluta tollkvóta með hlutkesti.

Ríkinu aftur stefnt

Félag atvinnurekenda taldi að búvörulögin brytu áfram í bága við stjórnarskrá, enda hefur ráðherra áfram það val samkvæmt lögunum að bjóða upp tollkvótana og innheimta útboðsgjald eða úthluta kvótunum endurgjaldslaust. Meðal annars á þeim forsendum var ríkinu stefnt á nýjan leik, og hefur Héraðsdómur nú fallist á rökin um framsal skattlagningarvaldsins.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður fyrirtækjanna sem unnu málið fyrir Héraðsdómi, segir að þegar dómur Hæstaréttar í fyrra málinu vegna útboðsgjalda féll hafi íslenska ríkinu mátt vera ljóst að afstaða þess væri röng og að lagfæra yrði meinbugi á búvörulögunum. 

Hafa réttmætan ábata af neytendum

„Það var ekki gert, þvert á móti hélt þáverandi landbúnaðarráðherra því fram að lagabreytingarnar stæðust stjórnarskrá,“ segir Páll. „Eftir sátu fyrirtækin, sem urðu að leita réttar síns á nýjan leik, og neytendur með innflutningsfyrirkomulag sem markast af viðleitni stjórnvalda til að hafa af þeim þann réttmæta ábata sem alþjóðasamningar eiga að veita þeim.“

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að ríkið hljóti nú að endurskoða úthlutun tollkvóta fyrir búvörur.„Félagið hefur bent á aðrar leiðir til að úthluta tollkvótunum en þessa uppboðsleið, sem hækkar verð, hamlar samkeppni og reynist ríkissjóði að auki dýr, þar sem hann þarf reglulega að endurgreiða útboðsgjaldið með dráttarvöxtum,“ segir Ólafur.