Íslenska ríkið þarf að endurgreiða listamanninum Leifi Breiðfjörð virðisaukaskatt og álag upp á tæpar 7,5 millljónir króna auk dráttarvaxta, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur . Leifur gerði hurðirnar, sem eru níðþungar og geysistórar úr bronsi, í Hallgrímskirkju. Hvor þeirra vegur um átta hundruð kíló og þurfti krana til að koma þeim á sinn stað í byrjun árs 2010. Í stuttu máli var deilt um það hvort tollflokka ætti hurðirnar sem listaverk eða smíðavörur.

Fram kemur í málinu að Leifur hafi talið að flokka eigi hurðirnar sem listaverk. Tollstjóri úrskurðaði hins vegar að flokka ætti hurðirnar sem smíðavörur. Leifur flutti hurðirnar sjálfur inn frá Þýskalandi.

Í dómi héraðsdóms segir að ekki sé um það deilt að hurðirnar séu frumgerð listaverks. Það er í samræmi við flutningsskírteini EUR 1 sem gefið var út af þýskum tollayfirvöldum. Í úrskurði tollstjóra er hins vegar á því byggt að dyrnar hafi verið sérhannaðar til að nota sem útihurð í aðalinngangi Hallgrímskirkju. Tollflokkunin fari því ekki eftir fagurfræðilegum forsendum heldur eftir notagildi.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur