Hæstiréttur hefur hafnað beiðni íslenska ríkisins um áfrýjunarleyfi í máli Sigríðar Sæland Jónsdóttur gegn ríkinu. Synjunin þýðir að íslenska ríkið þarf að greiða ellilífeyrisþegum landsins samtals 5 milljarða króna.

Málið varðar í raun mistök við lagasetningu og hvort þau myndi eignaréttindi sem varin eru af stjórnarskránni. Við breytingu á lögum um almannatryggingar í árslok 2016 voru gerð mistök þar sem vísað var í rangan staflið en þau mistök þýddu að ekki var heimilt að skerða ellilífeyri vegna tekna úr lífeyrissjóði.

Sjá einnig: Móðir Ingu Sæland lagði TR

Mistökin uppgötvuðust í ársbyrjun 2017 og var lögunum þá breytt afturvirkt og þau færð í það horf sem þau áttu að vera. Eftir stóð að tvo fyrstu mánuði ársins var ellilífeyrir greiddur út eins og lögin áttu að vera en ekki eins og þau voru. Krafðist Sigríður Sæland, sem er móðir þingmannsins Ingu Sæland, að hin afturvirka skerðing bryti gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Héraðsdómur sýknaði ríkið en Landsréttur sneri niðurstöðunni. Ríkið sótti um áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að málið varðaði mikilsverða hagsmuni sína enda hefði niðurstaðan í för með sér að greiða þyrfti 5 milljarða þó dómkrafan hafi aðeins hljóðað upp á um 40 þúsund krónur. Þá taldi ríkið að dómur Hæstaréttar gæti haft fordæmisgildi um það hvort myndast gætu kröfuréttindi við augljós mistök við lagasetningu.

Að mati Hæstaréttar var ekki hægt að líta svo á að dómur réttarins gæti haft verulegt almennt gildi í skilningi einkamálalaga. Þá væri ekki séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til og beiðninni því hafnað.