Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hafa forsvarsmenn félagsins Frigur II farið fram á það við Fjármálaeftirlitið að sala á 17,7% hlut ríkisins sem það á í gegnum eignarhaldsfélagið Lindarhvol verði stöðvuð.

Sé það vegna brotalama við söluferlið, en félagið átti næst hæsta tilboð í félagið, en það segir að einn tilboðsgjafi hafi haft aðgang að meiri og ítarlegri upplýsingum en aðrir. Jafnframt segja þeir tilefni til að ætla að upplýsingar um tilboð þeirra hafi borist öðrum tilboðsgjafa sem hafi í kjölfarið hækkað tilboð sitt.

Tæplega 7 milljarða útgreiðslur úr félaginu á árinu

Í Morgunblaðinu í dag er svo fjallað um sölu Arion banka á 32% hlut sínum í Klakka til BLM fjárfestinga. Fékk bankinn 864 milljónir króna fyrir hlutinn, en útgreiðslur úr Klakka hafa numið 6.623 milljónum króna frá árslokum.

„Það jafngildir því að Arion banki hefði fengið 2.126 milljónir króna vegna hlutarins, hefði bankinn ekki látið hann frá sér,“ segir í fréttinni, en ríkissjóður á um 13% hlut í Arion banka.

„Eru þá ótalin þau verðmæti sem enn eru eftir í Klakka, en stærsta eign félagsins er fjármálafyrirtækið Lýsing.“

Forstjóri Klakka stjórnarmaður í kaupendum fyrirtækisins

Eignarhlutur BLM fjárfestinga í Klakka er 75% af hlutafé félagsins, en stjórnarformaður og eini stjórnarmaður BLM fjárfestinga er Magnús Sch. Thorsteinsson, forstjóri Klakka.

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag hljóðaði tilboð BLM fjárfestinga upp á 505 milljónir króna, en Morgunblaðið segir greiðsluflæðið frá Klakka vegna þessa hlutar á árinu nema 1.026 milljónum króna.

Þrisvar sinnum hærra verð en bankinn fékk

„Samtals er því greiðsla vegna hlutarins 1.530 milljónir. Sé litið til þessa er sambærilegt viðmið fyrir 32,1% hlut Arion banka í Klakka rúmlega 2.700 milljónir,“ segir í fréttinni.

„Er það það þrisvar sinnum hærra verð en Arion banki virðist hafa fengið við sölu hlutarins til sama kaupanda, BLM, í árslok 2015.“

Endurheimtum af eignum haldið utan við kaupin

Í svari bankans við fyrirspurn segir að endurheimtum af eignum Klakka yrði haldið fyrir utan kaupin en andvirði af sölu hluta félagsins í VÍS, Bakkavor Group og réttindum tengdum Glitni myndu renna óskiptar til bankans.

Ekki vildi bankinn þó upplýsa um hve háar fjárhæðir væri um að ræða.