Íslenska ríkið varði sem samsvarar 7,6% af landsframleiðslu í heilbrigðismál árið 2014. Það er næstlægsta hlutfallið meðal Norðurlandanna. Þetta kemur fram í skýrslu Eurostat sem birt var á dögunum.

Aðeins í Svíþjóð varði hið opinbera lægra hlutfalli landsframleiðslu í heilbrigismál, eða 7,0 prósentum. Hlutfallið var 7,8% í Noregi, 8,3% í Finnlandi og 8,7% í Danmörku.

Hins vegar var Ísland í öðru sæti meðal Norðurlandanna þegar litið er á útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af opinberum útgjöldum. 16,6% opinberra útgjalda á Íslandi árið 2014 voru vegna heilbrigðismála, en hlutfallið var 17,1% í Noregi, 15,6% í Danmörku, 14,3% í Finnlandi og 13,6% í Svíþjóð.

Ríki Evrópusambandsins vörðu að meðaltali 7,2% af landsframleiðslu í heilbrigðismál árið 2014. Hlutfallið var hæst í Danmörku en lægst í Slóvakíu, eða 1,9 prósent.