Heildarfjárhæð veitts stuðnings stjórnvalda til rekstraraðila og einstaklinga á tímabilinu frá mars til desember nam 60 milljörðum króna að því er Hagstofa Íslands hefur tekið saman.

Þar af nam beinn fjárhagsstuðningur um 38,4 milljörðum króna, frestun skattgreiðslna um 9,7 milljörðum króna og veittar lánaábyrgðir um 11,8 milljörðum króna. Stuðningurinn kemur til vegna áhrifa sóttvarnaraðgerða við heimsfaraldri Covid 19.

Nánar tekið fóru 24,5 milljarðar í hlutabætur, 11,7 milljarðar í greiðslu launa á uppsagnarfresti, stuðningslánin námu 9 milljörðum króna, viðbótarlán tæplega 2,8 milljörðum, lokunarstyrkir tæplega 1,9 milljörðum og laun í sóttkví námu 357 milljónum króna.

36 milljarða ríkisstyrkir til fyrirtækja

Heildarfjárhæð veitts stuðnings til 3.106 rekstraraðila, hvort sem er í formi frestunar skattgreiðslna, beinna styrkja eða veittra lánaábyrgða, nam tæplega 35,5 milljörðum króna.

Af þeim rekstraraðilum sem nýttu sér eitthvert ofangreindra úrræða nýttu 708 rekstraraðilar fleiri en eitt úrræði. Alls hefur 23 rekstraraðili sótt um greiðsluskjól frá því að úrræðið kom til framkvæmdar og af þeim rekstraraðilum sem hafa nýtt eitthvert ofangreindra úrræða hafa 11 óskað eftir gjaldþrotaskiptum.

Viðtakendur hlutabóta voru 37.017 talsins á tímabilinu, en rúmlega 65% þeirra sem hafa fengið hlutabætur eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og um 10% á Suðurnesjum.

Um 42% viðtakenda eru á aldrinum 25-39, og um 37% á aldrinum 40-59. Um 56% viðtakenda hlutabóta eru karlar og 44% konur. Af þeim sem hafa fengið greiddar hlutabætur störfuðu um 37% í einkennandi greinum ferðaþjónustu.