Samkvæmt frumvarpsdrögum mun ríkið fá greitt sem nemur 7,6% af heildarveltu þess félags sem sér um rekstur og skráningar .is léna. Ekki er hægt að skrá slíkt lén nema í gegnum ISNIC í dag.

Í nóvember síðastliðnum kynnti samgönguráðuneytið drög að frumvarpi um „landslénið.IS og önnur höfuðlén sem sérstaka skírskotun hafa til Íslands“ og óskaði eftir umsögnum. Samkvæmt þeim drögum á að leyfisskylda þá starfsemi sem ISNIC hefur séð um varðandi skráningu og rekstur .isléna til fimm ára í senn.

Póst- og Fjarskiptastofnun (PFS) á, samkvæmt frumvarpinu, að sjá um úthlutun slíks leyfis og þeir sem fá því úthlutað eiga að greiða 7,6% af ársveltu sinni í svokallað rekstrargjald til PFS. Miðað við afkomu ISNIC á árinu 2010 myndi það þýða að félagið þyrfti að greiða PFS um 16 milljónir króna vegna síðasta árs yrði frumvarpið að lögum. Gjöldin eiga að notast í rekstur PFS.

Í skýrslu stjórnenda ISNIC, sem fylgir með ársreikningi félagsins, kemur fram að félagið hafi sent inn lögfræðilega umsögn til ráðuneytisins og „mótmælt ýmsu í drögunum harðlega“. Frumvarpið hefur enn ekki verið lagt fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.