Fjármálaráðherra vill fá heimild til að taka að láni allt að 160 milljarða króna, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til að lána Seðlabankanum og efla gjaldeyrisvaraforðann gerist þess þörf.

Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fyrir Alþingi í gær.

Í fjáraukalögunum kemur fram að lánsloforð samstarfsþjóða í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa ekki verið fullnýtt.

Helmingur af láni Norðurlandanna hafi veri nýtt og þriðjungur lánsins frá Póllandi. Heimildir til að nýta lánsloforðin renna út um áramótin. Þá segir í fjáraukalögunum að nauðsynlegt sé að hafa sveigjanleika til að draga á lánin ef nauðsynlegt þyki til að styrkja gjaldeyrisforðann frekar.