Í Global Trends 2025, skýrslu National Intelligence Council (NIC) í Bandaríkjunum, er dregin upp mynd af minnkandi áhrifum Bandaríkjanna í heiminum, minnkandi auðlindir og aukinn fólksfjölda.

NIC, sem er sjálfstæð stofnun innan alríkisstjórnarinnar og helsta hugveita þarlendra njósnastofnana, bendir á að í skýrslunni sé bent á líklega þróun mála í heiminum, þar á meðal að það ferli að ríkidæmi og efnahagsleg völd haldi áfram að flytjast frá Vesturlöndum til Austurlanda. Þetta verði þróun sem „eigi sér enga hliðstæðu“ í samtímasögunni.

Þau lönd sem einkum eru nefnd í þessu sambandi eru Brasilía, Rússland, Kína og Indland. Þau njóti góðs af hækkandi verði á olíu og hrávöru sem og flutningi á framleiðslu- og þjónustuiðnaði til Asíu. Því er spáð að ekkert annað land muni hafa jafn djúptæk áhrif í heiminum á næstu tveimur áratugum og Kína. Að óbreyttu verði þar annað stærsta hagkerfi heimsins árið 2025 og mikilvægi kínverska hersins verði stöðugt meira. Afríkuríki sunnan Sahara verði sem áður viðkvæmust fyrir efnahagssveiflum og þar verði mest um borgaraleg átök og mestur stjórnmálalegur óstöðugleiki.

Þessi heimshluti verði stór framleiðandi þeirrar hrávöru sem þarf til að mæta aukinni eftirspurn á  heimsvísu en ólíklegt er að íbúar þessa heimshluta njóti arðs af því. Þess í stað er því spáð að spilltar eða vankunnandi ríkisstjórnir sölsi undir sig hagnaðinn.

Því er spáð að spurn eftir matvörum hafi aukist um 50% árið 2030 er afleiðingar af fólksfjölgun í heiminum, meiri kaupgetu og vestrænni hátta í matarvenjum stöðugt stækkandi millistéttar.

Fjöldi landa sem hafa ekki greiðan aðgang að vatni fjölgar úr 21 með 600 milljónum íbúa í 36 lönd með 1,4 milljarði íbúa.

Breytingar á orkunotkun verða hægfara sem og þróun nýrrar tækni sem ekki byggir á jarðefnaeldsneyti.