Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi verjendum í Baugsmálinu samtals 40,8 milljónir króna í málsvarnarlaun úr hendi ríkissjóðs. Auk þess var feldur 16,8 milljóna króna kostnaður á ríkið vegna annars kostnaðar varnarinnar.

Málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði sem hér segir: Gesti Jónssyni hrl., 15.000.000 króna, Einari Þór Sverrissyni hdl., 6.000.000 króna, Kristínu Edwald hrl., 7.200.000 króna, Jakobi R. Möller hrl., 4.400.000 króna og Þórunni Guðmundsdóttur hrl., 8.200.000 króna.

Annar sakarkostnaður, samtals 16.874.295 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.

Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og viðmiðunarreglum dómstólaráðs. Þá er virðisaukaskattur innifalinn í málsvarnarlaununum. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gests Jónssonar hrl., ákveðast þannig 15.000.000 króna. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóhannesar Jónssonar, Einars Þórs Sverrissonar hdl., ákveðast þannig 6.000.000 króna. Málsvarnarlaun verjanda ákærðu Kristínar Jóhannesdóttur, Kristínar Edwald hrl., ákveðast þannig 7.200.000 krónur.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða Tryggva Jónssonar, Jakobs R. Möller hrl., ákveðast þannig 4.400.000 króna. Málsvarnarlaun verjanda ákærðu Stefáns Hilmars Hilmarssonar og Önnu Þórðardóttur, Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., ákveðast þannig 8.200.000 króna.

Yfirlit um sakarkostnað í málinu hefur ekki borist frá ákæruvaldinu, sbr. 2. mgr. 168. gr. oml., sbr. lög nr. 82, 2005.

Hins vegar hafa verjendur ákærðu Jóns Ásgeirs, Stefáns Hilmars og Önnu lagt fram yfirlit yfir kostnað sem ákærðu hafa haft af öflun sérfræðiálita og gagna þeim tengdum. Nemur kostnaður ákærða Jóns Ásgeirs samtals 15.936.375 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti og kostnaður ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu 937.920 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt 166. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. b - lið 164. gr. sömu laga ber að greiða allan þennan kostnað úr ríkissjóði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og annars sakarkostnaðar hefur verið litið til málsins í heild eins og það var samkvæmt ákærunni, en með dómi Hæstaréttar 10. október sl. var fyrstu 32 ákæruliðum vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar var kveðið á um að ákvörðun sakarkostnaðar, þar með talinna málsvarnarlauna, skyldi bíða efnisdóms.