Fyrirtæki Danila Andreyev er um þessar mundir að klára fimmtán neyðarskýli fyrir ríka Rússa sem óttast hryðjuverkaárásir, aukið ofbeldi eða náttúruhamfarir í heimalandinu. Í byrjun byggði Andreyev svokölluð neyðarherbergi - panic room - fyrir Rússana eftir að harkan í atvinnulífinu jókst og hryðjuverk urðu algengari.

Þessi hræðsla auðkýfinganna hefur heldur aukist og óttast þeir nú jafnvel heimsendarástand. Því hafa byrgin orðið rammgirtari og kostar hvert þeirra allta að 400 þúsund bandaríkjadali. Það jafngildir um 45,6 milljónir íslenskra króna. Þetta kemur fram á Bloomberg fréttaveitunni.

En það er ekki bara í Rússlandi sem fólk óttast árásir og hamfarir af ýmsum toga. Bandarískt fyrirtæki sem staðsett er í Idaho og sérhæfir sig í byggingu kjarnorkuskýla segir að fyrirspurnum frá mögulegum viðskiptavinum hafi fjölgað um 60% samkvæmt Bloomberg. Annað fyrirtæki í Kaliforníu segir að beiðnum um skýli hafi tífaldast frá því að jarðskjálftinn reið yfir Japan í mars.